Aðildarsamningur Norðmanna 1994. Fakts.

Markmið norsku ríkistjórnarinnar á sviði sjávarútvegs voru að tryggja arðvænlega og sjálfbæra þróun á sviði fiskveiða og fiskeldis. Í aðildarviðræðunum var einkum tekist á um eftirfarandi málefni (Úlfar Hauksson, 2002; Utenriksdepartementet, 1994).

• Veiðiréttindi, aflahlutdeild og aðgangur að fiskveiðilögsögum

• Framkvæmd fiskveiðistjórnunnar

• Fjárfestingar í sjávarútvegi

Veiðiréttindi, aflahlutdeild og aðgangur að fiskveiðilögsögum:

Norska fiskveiðilögsagan liggur að hluta að lögsögu Evrópusambandsins og þurfa Norðmenn og sambandið að semja um fyrirkomulag veiða á deilistofnum á þessum svæðum. Í tengslum við EES-samningin á sínum tíma var gerður sérstakur fiskveiðisamningur milli Noregs og ESB sem kvað á um að veiðiheimildir ESB í norskri lögsögu færu úr 2,14% í 2,9%. Auk þess hefur ESB hlutdeild í þorski norðan 62. breiddargráðu upp á 1,28% og á sá veiðiréttur rætur sínar að rekja til samnings sem Norðmenn gerðu á sínum tíma við Spánverja og Portúgali áður en þjóðirnar gengu í ESB (Fiskeridepartementet, 1997). Í aðildarsamningnum varð niðurstaðan sú að frá og með 1998 yrði hlutdeildin norðan 62. breiddargráðu 1,57% í stað 1,28%. Miðað við leyfilegan þorskafla í Barentshafi árið 1994 var þarna um að ræða aukningu upp á rúmlega 2000 tonn. Í aðildarsamningnum var einnig gert ráð fyrir að fiskiskip sambandsins fengju greiðari aðgang til veiða innan norskrar lögsögu úr sameiginlegum makrílstofni (Úlfar Hauksson, 2002; Utenriksdepartementet, 1994, Wise, 1992).

Í aðildarsamningnum er meginreglan sú að aflahlutdeild ESB innan norskrar lögsögu og öfugt er byggð á sögulegri veiðireynslu áranna 1989 til 1993. Í samningnum er kveðið á um að samningsaðilar meiga hvorki auka sókn í vannýtta stofna í lögsögu hvors annars, né auka veiðar á þeim tegundum sem ekki sæta ákvörðun um leyfilegan hámarksafla. Norðmönnum tókst því að tryggja svo til óbreytta stöðu mála gagnvart ESB frá því sem var í fiskveiðisamningnum í tengslum við EES-samkomulagið.

Norðmenn fóru fram á að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi þeirra norðan 62. breiddargráðu héldist óbreytt. Norðmönnum var veitt fullt forræði yfir þessu hafsvæði fram til 30. júní árið 1998. Samningsaðilar stóðu að sameiginlegri yfirlýsingu þar sem tekið var fram að við nýtingu fiskistofna á svæðinu eftir 30. júní árið 1998 skyldi byggt á því stjórnkerfi sem fyrir væri. Norðmenn túlkuðu þessa yfirlýsingu sem lagalega skuldbindingu um að fiskveiðistjórnunin á svæðinu yrði óbreytt. Þeir hefðu eftir sem áður lagt línurnar um nýtingu fiskimiðanna. Í sameiginlegu yfirlýsingunni hafi sérstaða Noregs sem eina strandríki ESB á þessu svæði verið áréttuð (Úlfar Hauksson, 2002; Utenriksdepartementet, 1994).

Áhrif og afleiðingar samningsins:

Samningur Norðmanna felur í sér að þeir gangast undir sjávarútvegsstefnu ESB að loknum aðlögunartíma sem er frá einu og upp í þrjú ár. Að þeim tíma loknum verða þær reglur sem Norðmenn hafa viðhaft við fiskveiðistjórnun hluti af heildarfiskveiðistefnu ESB. Stjórnun fiskveiða í lögsögu Noregs myndi því formlega falla undir stofnanir sambandsins en lúta sömu reglum og til þessa. Með aðild kæmu Norðmenn beint að mótun sjávarútvegsstefnunnar í framtíðinni. Sem mikil fiskveiðiþjóð með mikla reynslu á sviði sjávarútvegs gætu þeir því haft mikil áhrif á þróun hennar.

Mat norskra stjórnvalda var að öll helstu markmið þeirra varðandi sjávarútvegsmál hafi náð fram að ganga og væru staðfest í aðildarsamningi þeirra. Í honum hafi núverandi fiskveiðiréttindi Norðmanna verið fest í sessi og áframhaldandi yfirráð þeirra yfir fiskimiðunum tryggð með fullnægjandi hætti. Aðildarsamningur er ígildi Rómarsamningsins og honum verður ekki breytt nema með samþykki norskra stjórnvalda (Úlfar Hauksson, 2002; Lenaerts & Van Nuffel, 1999).

http://www.hi.is/solofile/1009780


mbl.is LÍÚ: Óraunhæft að bera Ísland saman við Möltu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband