2.5.2013 | 22:12
Allir helztu menn landsins að þjóna Sturlu Sighvatssyni.
,,Grund, Eyjafirði. Frá fréttaritara. Hingað kom fyrir skömmu Sturla Sighvatsson að finna föður sinn. Dvaldi hann hér um stund en reið síðan heim til Sauðafells. Sighvatur tók vel við Sturlu syni sínum er hann kom hingað og var margtalaður um bardagann í Bæ en þó gætti nokkuð meinlegrar gamansemi í tali Sighvats. Er hér utdráttur úr tali þeirra feðga eftir því er bezt verður vitað.
Sighvatur spyr Sturlu: ,,Hefir þar enn bardagi hjá yður verið, frændi?" ,,Svo létum vér" kvað Sturla. ,,Skammt hefur það él verið", segir Sighvatur. ,,Eigi þótti oss allskammt" segir Sturla. ,,Allmjög þykist þú nú upp hafa gengið," segir Sighvatur, ,,það er svo auðséð". ,,Hvi mun eigi svo þó?" kvað Sturla brosandi ,,en ekki ekki hefi ég þó orð á gert".
Þá mælti Sighvatur: ,,Bú muntu nú ætla að efna, frændi, er mér sagt, að þú hafir af höndum látið Reykholt. Sér þú nú og ofsjónum yfir flestum bústöðum, - eða hvar skaltu staðfestu fá, þá er þér þykir sæmileg." ,,Þig læt ég nú allt að gera" segir Sturla. ,,Ekki er um fleiri að leita en tvo", segir Sighvatur, ,,þegar frá eru teknir biskupsstólarnir. Er þar annarr Oddastaður, en annar Möðruvellir í Hörgárdal. Þeir eru bústaðir beztir og munu þér þykja einskis til miklir".
,,Þessir líka mér báðir vel" segir Sturla, ,,en eigi ætla ég þá lausa liggja fyrir". ,,Margs þarf búið við, frændi," segir Sighvatur. ,,Ráðsmann þyrftir þú og ráðskonu. Þessir menn skyldi vera birgir og kunna góða fjárhagi. Þessa menn sé ég gerla. Það er Hálfdán, mágur þinn á Keldum og Steinvör, systir þín."
Þá svarar Sturla: ,,Þessa er víst vel til fengið". ,,Þá þarftu, frændi, smalamann að ráða í fyrra lagi," segir Sighvatur. ,,Hann skyldi vera lítill og léttur á baki, kvensamur og liggja löngum á kvíagarði. Þann mann sé ég gerla. Það er Björn Sæmundsson. En fylgdarmenn skal ég fá þér, þá er gangi út og inn eftir þér. Það skulu vera bræður þínir, Þórður krókur og Markús." Sturla kvað bræðrum sínum það vel mundu fara.
,,Margs þarf búið við frændi," segir Sighvatur. ,,Þá menn þyrftir þú og, sem hefði veiðifarir og væru nokkuð laghentir, kynnu að gera að skipum og öðru því, er búið þarf við. Þessa menn sé ég gerla. Það eru þeir frændur þínir, Staðar-Böðvar og Þorleifur í Görðum". Sturla lét sér fátt um finnast og lézt þó ætla, að þeir væru báðir vel hagir."
,,Svo er og, frændi", segir Sighvatur. - ,,Þá menn þarftu er vel kunna hrossa að geyma og hafa ætlan á, hvað í hverja ferð skal hafa. Þessa menn sé ég gerla. Það er Loftur biskupsson og Böðvar í Bæ." ,,Engi von er mér til þess," segir Sturla, ,,að allir menn þjóni til mín, og er slíkt þarflausutal."
,,Nú er fátt um mannaskipanir eftir, það er þykir allmikla nauðsyn til bera", sagði Sighvatur, ,,en þá menn þarftu, er hafi aðdráttu og fari í kaupstefnur og til skipa, skilvísa og skjóta í viðbragði og kunna vel fyrir mönnum að sjá og til ferða að skipa. Þessa menn sé ég gerla. Það er Gissur Þorvaldsson og Kolbeinn ungi."
Þá spratt Sturla upp og gekk út. En er hann kom inn, brá Sighvatur á gaman við Sturlu - og tóku þá annað tal.
Sturla dvaldist þar þá eigi lengi og reið heim til Sauðafells.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3660099
Framhaldið ekki ákveðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.