18.3.2011 | 12:20
Lagalegar afleiðingar synjunar
Í gær skrifaði í fjölmiðla Margrét Einarsdóttir forstöðumaður Evrópuréttarstofnunar HR og LL.M í Evrópurétti eftirfarandi fræðslugrein:
...
,,Ágætt er að byrja á því að rifja upp að Icesave-málið er nú þegar í ferli hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Hinn 26. maí 2010 sendi ESA íslenska ríkinu áminningarbréf þar sem stofnunin lýsti því yfir að íslenska ríkið hefði gerst brotlegt við tilskipun 94/19 um innistæðutryggingar og 4. gr. EES-samningsins, þar sem lagt er bann við allri mismunun á grundvelli þjóðernis. Hefur ESA lýst því yfir að ef samningar takist á milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar í Icesave-deilunni muni stofnunin ekki grípa til frekari aðgerða. Ef Icesave-lögin verða hins vegar felld í þjóðaratkvæðagreiðslunni má telja fullvíst að ESA haldi áfram með málið. Næsta skref í ferlinu verður þá að íslenska ríkið skili athugasemdum sínum til ESA og í framhaldinu má búast við að ESA gefi út rökstutt álit. Slíkt álit er undanfari þess að stofnunin höfði samningsbrotamál gegn íslenska ríkinu fyrir EFTA-dómstólnum.
Næst er að velta fyrir sér hver væri líkleg niðurstaða EFTA-dómstólsins í slíku máli. Því miður hallast ég að því að verulegar líkur séu á því að íslenska ríkið myndi þar bíða lægri hlut. Í áminningarbréfi ESA er m.a. byggt á því að íslenska ríkið hafi brotið gegn grundvallarreglu EES-samningsins um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis. Við fall bankanna í október 2008 voru innistæður í innlendum útibúum tryggðar að fullu á meðan innistæður í erlendum útibúum nutu engrar tryggingar. Í þessu felst óbein mismunun á grundvelli þjóðernis og því að öllum líkindum um að ræða skýrt brot gegn 4. gr. EES-samningsins.
Í öðru lagi byggir ESA á því í áminningarbréfinu að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við tilskipun 94/19 um innistæðutryggingar þar sem íslenska ríkið hafi ekki séð til þess að hér á landi væri komið á fót innistæðutryggingakerfi sem virkaði, þ.e. sem hefði í raun og veru burði til þess að tryggja innistæðueigendum þá lágmarksupphæð, 20.000 evrur, sem kveðið er á um í tilskipuninni. Hafi íslenska ríkið því ekki uppfyllt það markmið tilskipunarinnar að tryggja innistæðueigendum raunverulega vernd. Af dómaframkvæmd EFTA- og Evrópudómstólsins er ljóst að það er ríkjandi lögskýringarsjónarmið hjá dómstólunum að túlka löggjöf í samræmi við markmið hennar. Þá er mikil áhersla lögð á að réttindi einstaklinga á grundvelli EES-samningsins og Evrópusambandsréttar njóti virkrar verndar. Í þessu ljósi hallast ég að því að líkur séu á því að niðurstaða EFTA-dómstólsins yrði sú að íslenska ríkið hefði einnig gerst brotlegt við tilskipun 94/19 um innistæðutryggingar.
Dómur EFTA-dómstólsins þess efnis að íslenska ríkið hafi brotið gegn samningsskuldbindingum sínum á grundvelli EES-samningsins myndi setja aukinn pólitískan þrýsting á Íslendinga að greiða skuldina. Ef íslenska ríkið yrði ekki við því kynnu samningsaðilar EES-samningsins að grípa til refsiaðgerða gegn okkur á grundvelli samningsins.
Í samningsbrotamáli fyrir EFTA-dómstólnum yrði þó ekki leyst úr því með beinum hætti hvort íslenska ríkið bæri skaðabótaábyrgð vegna samningsbrota sinna. Bretar og Hollendingar gætu hins vegar höfðað mál fyrir íslenskum dómstólum og krafist skaðabóta. Íslenskir dómstólar myndu í slíku dómsmáli leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Kæmi það því í hlut þess dómstóls að veita ráðgefandi álit á því hvort skilyrði bótaskyldu vegna brota á EES-rétti væri uppfyllt. Skilyrði bótaábyrgðar vegna brota á EES-rétti eru þau að reglan sem brotin var skapi rétt handa einstaklingum, að orsakatengsl séu á milli brotsins og tjónsins og að brotið sé nægjanlega alvarlegt. Enginn vafi leikur á því að tvö fyrrnefndu skilyrðin eru uppfyllt og myndi því fyrst og fremst reyna á það í dómsmáli af þessu tagi hvort samningsbrot íslenska ríkisins væru nægjanlega alvarleg til að varða bótaábyrgð. Í ljósi dóms Evrópudómstólsins í máli C 392/93 British Telecommunications tel ég vafa leika á því að brot íslenska ríkisins gegn tilskipun um innistæðutryggingar myndi uppfylla það skilyrði. Hins vegar má telja verulegar líkur á því að brot íslenska ríkisins gegn banni við mismunun á grundvelli þjóðernis, sem er algjör grundvallarregla EES-réttarins, yrði talið nægjanlega alvarlegt. Íslenska ríkið yrði því a.m.k. talið bótaskylt á þeim grundvelli, (sjá til hliðsjónar dóm Evrópudómstólsins í máli C 5/94 Hedley Lomas). Telja verður útilokað annað en að dómur íslenskra dómstóla í málinu yrði í samræmi við niðurstöðu ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins.
Þá er það áhyggjuefni að Bretar og Hollendingar gætu fyrir íslenskum dómstólum byggt á því að vegna brota á 4. gr. EES-samningsins bæri íslenska ríkið bótaábyrgð á heildarinnistæðum innistæðueiganda í Bretlandi og Hollandi en ekki einungis þeirri fjárhæð sem samsvarar innistæðutryggingu að 20.000 evrum. Skuld Íslendinga við Breta og Hollendinga yrði þá um tvöfalt hærri en hún er samkvæmt því samkomulagi sem nú hefur náðst. Þá myndi skuldin væntanlega öll falla í gjalddaga við uppkvaðningu dóms Hæstaréttar.
Á grundvelli alls framansagðs fylgir dómstólaleiðinni veruleg áhætta fyrir Íslendinga. Er annarra að leggja mat á hvort sú áhætta sé ásættanleg með hliðsjón af þeim samningi sem nú liggur fyrir."
http://www.visir.is/icesave---lagalegar-afleidingar-synjunar/article/2011703179991
Nú, ekki er að orðlengja það að allt er þetta í samræmi og línu við það er eg hef marg, margsagt fólki og stafað fram hægt og með stórum stöfum.
En varðandi mál 392/93 sem sérfræðingurinn bendir á, þá er það mál ekki relevant fyrir íslands tilfelli og enginn vafi kemur til þess vegna í raun. Auk þess sem óþarfi er að velt því fyrir sér, því um leið og litið er af þeim þætti málsins blasir við hyldýpis gjá gróflega brotinnar Jafnræðisreglu.
Eigi flókið og hefur aldrei verið.
Dómsmál minni efnahagsleg áhætta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Bankarnir 3 eiga ennþá erfitt með EFTA og þá sérstaklega þegar kemur að áhættustýringum, það er skrítið að stjórnvöld þori aldrei að tala um þá veikleika að stóru bankarnir eru reistir eins og fjárfestingabankar, en ef áhættustýringar þeirra tækju mið af viðskiptabönkum þá væri eiginfjárhlutföll þeirra minna en ekki neit, stóru bankarnir færu rakleiðis á hausinn ef þeir notuðu sömu áhættugrunna og sparisjóðirnir þrátt fyrrir afskriftir, því má aldrei ræða áhættustýringarnar, eiga menn að undirrita Icesave með helminginn af sannleikanum undir borði.
valgeir einar ásbjörnsson (IP-tala skráð) 20.3.2011 kl. 00:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.