Þingrofið 1931

Frásögn sjónarvotts, Haralds Matthíassonar,  af viðbrögðum þingmanna er Tryggvi Þórhallsson Forsætisráðherra rauf þing fyri tæpum 80 árum:

"Alger þögn og kyrrð var í salnum meðan forsætisráðherra flutti ræðu sína, einnig eftir að ljóst var orðið að þing var rofið og þingmenn á svipstundu sviptir umboði. En að ræðu lokinni var kyrrðin skyndilega rofin. Menn spruttu úr sætum, æddu um, og hver talaði upp í annan. Var því líkast sem ógurleg skriða félli með gný og hávaða. Hef ég aldrei séð slíka ólgu brjótast svo skyndilega fram upp úr slíkri þögn. Héðinn Valdimarsson varð fyrstur til máls. Sæti hans var fram af dyrum ráðherraherbergisins, rétt hjá borðum ráðherra. Héðinn reis upp og hrópaði: "Niður með konunginn og íslensku stjórnina. Stjórnin þorir ekki að láta samþykkja stjórnarskrána." Magnús Guðmundsson hrópaði: "Niður með íslensku stjórnina." Margir flokksmenn þeirra hrópuðu: "Heyr, heyr."

Nú ruddust þingmenn upp úr sætum sínum og allt varð í uppnámi. Mest bar á Ólafi Thors. Sæti Ólafs var við borðsendann hægra megin við aðaldyrnar inn í þingsalinn. Ólafur æddi inn á gólfið allt upp að borði ráðherranna. Þeir voru nú staðnir upp og stóðu við vegginn bak við stólana og var þá borðið og stólarnir á milli. Ólafur hrópaði: "Þetta er sú svívirðilegasta misbeiting valds sem nokkurn tíma hefur þekkst." Tryggvi svaraði fáu.

Ringulreiðin fór sívaxandi, hver talaði upp í annan og margir voru æstir. Ólafur sneri sér að Tryggva og mælti: "Þessu hefði ég aldrei trúað á þig, Tryggvi. Maður hefði að vísu trúað því á Jónas því hann er vitlaus." Hann kallaði margsinnis stjórnina þjófa og sagði: "Það er algengt að þjófar séu dæmdir til dauða en að þeir hafi gert það sjálfir hef ég ekki vitað fyrr." Þá svaraði Tryggvi: "Við sjáum til um kosningarnar í sumar."

Þá sneri Ólafur sér að Jónasi Jónssyni og skammaði hann stórkostlega. Hann sagði m.a.: "Þú hefur reynt að troða þér í vinfengi við mig." Jónas svaraði: "Ég hef alltaf fyrirlitið þig og fyrirlít þig enn." Héðinn Valdimarsson var einnig mjög æstur og köstuðust þeir Jónas á nokkrum óþvegnum orðum.

Stundu síðar sá ég að komin var einhver harka fram undir dyrum þingsalarins. Ég fór þangað, eins nálægt og mér þótti hæfilegt og sá að þeir Hákon Kristófersson og Ólafur Thors stóðu þar gagnvart Jóni Jónssyni í Stóradal. Hafði Hákon í frammi stóryrði gagnvart Jóni, sagði m.a.: "Mér yrði ekki mikið fyrir að kasta svona hundum og skítseiðum út." Virtist mér þeir Ólafur báðir líklegir til að láta athafnir fylgja orðum."

(Höfundurinn, dr. Haraldur Matthíasson, er landskunnur fræðimaður, sagnaþulur og ferðagarpur. Hann starfaði í áratugi á skrifstofu þingsins sem þingskrifari (hraðritari) og er eftir því sem best er vitað eini núlifandi Íslendingur (1999) sem viðstaddur var þennan sögulega stjórnmálaatburð í þingsalnum

Greinin birtist Laugardaginn 17. apríl, 1999 - Menningarblað/Lesbók og má lesa í heild hér:

http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=462238 

Og ljóst má vera að talsverður hiti hefur verið í þingmönnum við þetta tilefni.  Nokkuð ljóst.

 


Bloggfærslur 22. september 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband